Birna Sif Kristínardóttir, markþjálfi

Birna Sif hefur lokið ACSTH vottuðu námi  í markþjálfun og starfar undir alþjóðlegum siðareglum ICF. Hún er félagsmaður ICF á Íslandi sem og á alþjóðavísu. 

Birna Sif býr yfir góðri og eðlislægri nærveru í senn sem hún getur verið áskorandi í markþjálfastarfinu.

Birna Sif er með M.Sc. í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík (2013) og B.Sc. í viðskiptafræði (2011). Hún er með yfir tíu ára starfsreynslu á sviði netmarkaðsmála, bæði sem vef- og stafrænn stjórnandi markaðsteyma, en lengst af sem ráðgjafi á stafrænum auglýsingamarkaði. Í dag starfar hún alfarið sem markþjálfi hjá Hugarsetri.

Markþjálfun

Markþjálfun er sniðin að þeim sem vilja fá aðstoð við að láta verkin tala og eru tilbúnir að horfast í augu við sjálfa sig, hvort sem er til að gera umbætur, velta upp nýjum möguleikum, ná settum markmiðum, taka ákvarðanir, takast á við breytingar, höndla samskipti, elta drauminn eða einfaldlega að byggja upp jákvæða sjálfsmynd og auka lífsgæðin.


Markþjálfar sem hlotið hafa ICF þjálfun leggja sig fram um að virkja sköpunargleði einstaklinga. Þeir hvetja þá til að skoða málin frá nýju sjónarhorni, hreyfa við þeim og aðstoða þá við að finna farveg til að koma raunverulegum markmiðum í framkvæmd. Í markþjálfasamtali er litið svo á að hver einstaklingur sé sérfræðingur í sínu lífi og í samvinnu við hæfan markþjálfa geti allir komist í snertingu við sinn innri drifkraft og náð árangri. 

Í markþjálfasamtali beitir markþjálfinn virkri hlustun og spyr opinna spurninga til að ná fram því sem býr að baki þess sem einstaklingurinn tjáir. Hann speglar viðbrögðin til baka og hefur bein tjáskipti um það sem hann verður áskynja í samtalinu, allt til þess að ýta undir sjálfsþekkingu og lærdóm sem fært getur viðkomandi nær því sem hugur hans og hjarta stendur til.

Af vef ICF á Íslandi